89. Heilagt hjónaband
Brúðguminn og brúðurinn ganga í kirkju og fram að þrepum altarisins. Presturinn vígir síðan giftingarhringina.
Nú spyr presturinn brúðgumann, hvort hann vilji og ætli sér að kvænast stúlkunni. Þegar brúðguminn hefur játað því, spyr presturinn brúðina, hvort hún vilji og ætli sér að giftast manninum. Þegar hún hefir sagt já, setja þau hringina hvort á annað og takast í hendur með hægri hendi. Presturinn leggur nú stóluna yfir hendur þeirra og hjónaefnin lýsa því nú yfir í nærveru prests og vitna, að þau gangi að "eiga hvort annað". Presturinn blessar nú þennan sáttmála hjónanna í nafni kirkjunnar.
Að giftingarathöfninni aflokinni er venjulega brúðmessa. Ungu hjónin ganga til altaris í messunni með aðstandendum sínum (Messu má ekki syngja við brúðkaup, nema hvort tveggja hjónanna sé kaþólskrar trúar).
Þegar komið er fram yfir Faðir Vor í messunni, v eitir presturinn brúðinni það, sem kallað er brúðarblessun,
Að messu lokinni ákallar presturinn Guðs blessun og himneska vernd hjónunum til handa.
Þegar Guð skapaði fyrstu foreldra vora, Adam og Evu, skapaði hann þau sem mann og konu. Hann sameinaði þau í ævilangan heilagan samlifnað. Vér sjáum af þessu, að Guð stofnaði til hjónabandsins þegar í Paradís.
Kristur helgaði hjónabandið með krossdauða sínum og gerði hjónabandið að náðarlind. Kristur gerði hjónabandið einnig að sakramenti. Kristilegt hjónaband er táknræn mynd náðareiningar krists og kirkjunnar, sbr. bréf heilags Páls postula til Efesusmanna, 5. kapítula, 32. vers.
Bruðhjónunum ber að undirbúa brúðkaup sitt á samviskusamlegan hátt, þ.e. þau eiga að reyna að komast að, eins og unnt er, hvort þau eigi saman að skapi og hvort ást þeirra hvors til annars sé nógu sterk til þess að endast lífið út. Til þess að ganga úr skugga um þetta, eiga þau að leita Guðs hjálpar og biðja hann að upplýsa hug þeirra; einnig ber þeim að ráðfæra sig við foreldra sína og skriftaföður. Þau eiga að halda trúlofun sína heilaga og kalla þannig yfir sig og fyrirhugað hjónaband sitt blessun Guðs.
Brúðhjónin eiga um fram allt að vera sömu trúar. Það er sjaldnast til hamingju fyrir hjónin og börn þeirra, ef þau eru ekki öll kaþólskrar trúar. Kirkjan dregur úr því að fólk gangi í blönduð hjónabönd.
Brúðhjónin eiga að vera í náðarástandi, er þau eru gefin saman. Þau eiga því, ef þörf krefur að ganga til skrifta áður en þau giftast. Við messuna ganga þau svo bæði til altaris, eins og áður var sagt.
Frammi fyrir prestinum og tveim vitnum heita brúðhjónin hvort öðru tryggð og gefa sig hvort öðru. Með heitum þessum ganga hjónin í heilagt hjónaband og eru nú hjón.
Í heilögu hjónabandi bindur Kristur brúðhjónin órjúfanlegu bandi, svo lengi sem annað þeirra lifir. Þess vegna segir Kristur eftirfarandi orð um skilnað: "Hver sem segir skilið við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem tekur þá konu, sem skilið hefir við mann sinn, drýgir hór". (Lúk. 16, 18).
Kristur veitir brúðhjónunum mikla náð er þau ganga í heilagt hjónaband. Hann helgar þau og styrkir, til þess að þau geti haldið dyggilega til dauðadags allt það, sem þau lofuðu og til þess að þau geti rækt hinar háleitu skyldur hjónabandsins samviskusamlega.
Brúðhjónin takast á herðar heilagar skyldur. Þau eiga að búa saman allt sitt líf í sátt og samlyndi, ást og eindrægni; þjóna Guði dyggilega í sameiningu og vera hvort öðru til stuðnings í þjáningum og þrautum. Einnig eiga þau að ala upp börn sín sem Guð veitir þeim í guðrækni og góðum siðum með góðu fordæmi. Eiga foreldrar að sjá börnum sínum fyrir þurftum bæði þessa heims og annars, svo sem þeim er framast kleift.
Íhugunarefni:
1. Hvenær var hjónabandið stofnað?
2. Með hverju helgaði Kristur hjónabandið?
3. Hvernig eiga brúðhjón að undirbúa sig undir brúðkaupið?
4. Hvaða sakramenti eiga hin tilvonandi brúðhjón að meðtaka, áður en
þau ganga í heilagt hjónaband?
5. Hver veitir hjónabandssakramentið?
6. Hvaða skyldur takast hjónin á hendur?
182. Hvernig fer kaþólsk hjónavígsla fram?
Brúðhjónin lýsa því yfir frammi fyrir presti og 2 vitnum,
að þau ætli að eigast.
183. Hverju áorkar Kristur í hjónabandssakramentinu?
Hann bindur hjónin heilögu, órjúfanlegu bandi og veitir þeim
ríkulegar náðargjafir, til þess að þau geti gegnt skyldum sínum sameiginlega, sem þau takast á hendur.
184. Hvað segir Kristur um skilnað?
Hver sem segir skilið við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem tekur þá konu, sem skilið hefir við
mann sinn, drýgir hór.
185. Hvers vegna er kirkjan treg til að veita leyfi til blandaðs
hjónabands?
Vegna þess að kirkjan álítur það vera til óheilla fyrir hjónin og börn þeirra.
Ásetningur: Eigingirni og munaðargirni eyða hjónabandinu. Sá, sem vill lifa í hamingjusömu hjónabandi á þegar í æsku að hugsa um hag annarra og veita öðrum aðstoð.
Heilög ritning: (Ef. 5, 25) "Þér menn, elskið konur yðar, að sínu leyti eins og Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann".
(Matt. 19, 6) "Það sem Guð hefur tengt, má maðurinn ekki sundur skilja".
Skilyrði fyrir hamingjusömu hjónabandi kaþólskra manna.
1. Sönn kaþólsk trú. 2. Sönn ást. 3. Áreiðanleg skaphöfn.
4. Líkamleg heilsa. 5. Mannsæmandi lífskjör.
Kirkjuleg hjónavígsla án prests.
Í lífshættu eða þegar um lengri tíma (mánuð) ekki er hægt að ná í löggiltan prest, geta menn gifst fyrir tveim vitnum svo að gilt sé. Slíkt hjónaband verður að vera tilkynnt sem fyrst hinum löggilta sóknarpresti.
Hjónabandsmeinbugir: Til þess að firra foreldrana og börnin tímanlegu og eilífu tjóni, er hjónaband í ýmsum tilfellum bannað samkvæmt guðlegu lögmáli, t.d. gifting fráskilinna. Af sams konar ástæðum hefur kirkjan einnig sett hjónabandsmeinbugi. Nokkrir meinbugir gera hjónabandið ógilt, t.d. náinn skyldleiki. Aðrir meinbugir gera hjónabandið ekki ógilt, heldur óleyfilegt, t.d. þegar hjónin eru ekki sömu trúar.
Kirkjan veitir undanþágu frá ýmsum meinbugum af mikilvægum ástæðum. Hún getir aldrei veitt undanþágu frá þeim meinbugum sem Guð hefur ákveðið.
Blönduð hjónabönd: Í blönduðu hjónabandi eru foreldrar og börn ósátt í mikilvægustu málum, sem sé í trúnni. Þau geta ekki gengið að borði Drottins saman og ekki lifað í samlyndi eftir kaþólskri trú. Ósjaldan verða foreldrar og börn hálfvolg í trúnni eða falla jafnvel frá henni. Ókaþólski aðilinn heldur oft að hann geti stofnað til nýs hjúskapar ef skilnaður á sér stað.
Eingöngu af mikilvægum ástæðum veitir kirkjan undan þágu frá banninu að ganga í blandað hjónaband, en ekki af fúsu geði. Í því tilfelli verða hjónaefnin að heita því hátíðlega að þau muni eingöngu láta kaþólskan prest gefa sig saman, og að öll börn þeirra verði alin upp í kaþólskri trú. Ókaþólski aðilinn verður að heita því, að aftra ekki kaþólska aðilanum og börnunum frá því að rækja trúarskyldur sínar.
Borgaralegt hjónaband: Borgaralegt hjónaband er ekki gilt fyrir kaþólska aðila. Þeir kaþólskir menn, sem láta gefa sig saman af öðrum en kaþólskum presti og lifa saman sem hjón, syndga stórlega. Þeir mega ekki meðtaka heilög sakramenti og fá ekki kirkjulega greftrun. Þegar kaþólskur maður lætur umboðsmann ókaþólsks kirkjufélags gefa sig saman, leiðir hann yfir sig kirkjubann. - Fyrirmæli kirkjunnar um skilyrði til gildrar hjónavígslu varða eingöngu kaþólska aðila, þess vegna stofna ókaþólskir aðilar með sér gilt hjónaband, þegar þeir eru gefnir saman í borgaralegt hjónaband.
Hjónaskilnaður fyrir borgaralegum dómstól: Þegar borgaralegur dómstóll
lýsir yfir hjónaskilnaði, gildir hann hvorki í augum Guðs né augum kirkjunnar.
Kirkjulegur hjúskapardómstóll: Kirkjulegur dómstóll getur ekki heldur veitt hjónaskilnað. Hann getur eingöngu gengið úr skugga um og lýst því yfir, hvort tiltekið hjónaband hafi frá upphafi verið gilt eða ekki. - Af alvarlegum ástæðum getur það verið dæmt, að eiginmaður og eiginkona lifi aðskilin. En þau geta aldrei meðan bæði lifa gengið í annað hjónaband. - Einnig gilt hjónaband ókaþólskra manna getur ekki verið leyst frammi fyrir Guði.
Verkefni:
1. Hvað segið þér við kaþólskan mann sem vill eingöngu ganga í borgaralegt hjónaband?
2. Hvers vegna bannar kirkjan blönduð hjónabönd?
3. Hverju verða hjónaefnin að heita, er þau ganga í blandað hjónaband?
4. Hvað á að halda um skilnað, sem borgaralegur dómstóll hefur veitt?
5. Nefndu nokkra hjónabandsmeinbugi, sem gera hjónabandið ógilt og aðra
sem gera það óleyfilegt.
AMEN
KLAUSTURLIFNAÐUR
Kristur vill að vér allir breytum eftir honum og sækjumst eftir fullkomnun. Sérstök leið til kristilegrar fullkomnunar er að lifa eftir regluheitum. Þess vegna fyrirfinnst í kirkju Krists, auk lífsstöðu prestsskapar og hjúskapar, sem eru sakramenti, önnur sérstök lífsstaða, sem er klausturlífið.
90. Klausturlifnaður
Heilagur Benedikt af Núrsíu hafði á æskuárum sínum dregið sig í hlé til að lifa í afskekktum helli og að biðja þar í næði og hugleiða leyndardóma Guðs. Áður en langt um leið gerði hann sér ljóst, að hann var kallaður af Guði til að lifa sameiginlegu lífi með öðrum munkum. Hann stofnaði klaustur og samdi klausturreglur, er munkarnir fóru eftir og lifðu sameiginlega sem ein fjölskylda við bæn og iðju. Hann sjálfur varð fyrsti ábóti klausturs síns.
Síðan á fyrstu öldum kristninnar lifa margir kristnir menn - prestar og leikmenn - sameiginlegu klausturlífi. Þeir helga sig bæn, hugleiðingu, sameiginlegri messugjörð og tíðahaldi. Margir þeirra gegna starfi sálusorgara, fást við unglingastarfsemi og hjúkrun sjúkra, einkum í trúboðslöndum. Slík félög nefnum vér reglur eða klausturfélög. Margar
reglur og klausturfélög hafa verið stofnuð af dýrlingi.
Sá sem vill þjóna Guði í klaustri, neitar sér um margt, sem annars væri leyfilegt og gott sakir Guðs ríkis. Hann er án einkaeignar og lifir af því sem klausturfélagið eða velunnarar gefa honum; Hann neitar sér um hjúskapar- og fjölskyldulíf til að lifa í einlífi og þannig að tilheyra Guði fyrir fullt og allt; Gengst undir hlýðnisskyldu við yfirmenn sína í reglunni eða klausturfélaginu. Þessar skyldur tekur hann á sig með klausturheitunum.Í nokkrum félögum vinna menn ekki regluheit, heldur gefa menn eingöngu loforð.
Klausturreglur og klausturfélög eru mikilsverð fyrir kirkjuna og heiminn. Klausturfólkið biður og færir fórnir oss öllum til handa, einnig þeim sem heiðra ekki Guð eða móðga hann. Með fordæmi sínum örva þeir oss til að elska Guð og náunga vorn af öllu hjarta og að vera þess búnir að fórna öllu þegar það er vilji Guðs. Starf þeirra í þágu mannanna færir heiminum ríkulega blessun.
Reglulífið er sálinni mikil hjálp á leið hennar til Guðs. Sá sem þjónar Guði í klausturlífi nýtur öruggrar á ákveðinnar leiðsögu, hann er laus við margar áhyggjur og freistingar og getur helgað sig Kristi heilan og óskiptan. Hann lifir í samfélagi við aðra, sem liðsinna honum með bænum sínum og góðu eftirdæmi, til að þjóna Guði á sem fullkomnastan hátt.
Sa sem vill ganga í klaustur, verður að hafa köllun frá Guði til þess lifnaðar. Hann verður að hafa þann ákveðna vilja að elska Guð framan öllu öðru, að feta algerlega í fótspor Krists og að sækjast eftir fullkomnun. Auk þess verður hann að vera þess fús og megnugur að lifa í klausturfélagi, að halda klausturákvæðin, að hlýða yfirmönnum sínum, að afsala sér allri einkaeign og að lifa einlífi. Hann verður einnig að vera vel til þess fallinn að starfa að sérstöku hlutverki þeirrar reglu eða þess klausturfélags sem hann leitar inngöngu í. Fyrir þann sem hefur köllun til þess, er klausturlífið mikil hamingja og öruggasta og fegursta leiðin til fullkomnunar.
Íhugunarefni:
1. Hvaða hlutverki helgar klausturfólk sig?
2. Hverju neitar klausturfólk sér um fyrir sakir Guðs ríkis?
3. Hvaða mikilvægu þýðingu hefur klausturfólk fyrir kirkjuna og allan
heiminn?
4. Hvaða hjálp veitir klausturlífið að því er varðar leiðina til himnaríkis?
5. Til hvers verður sá að vera fús, er vill ganga í klaustur?
6. Til hvers verður hann að vera hæfur?
186. Hvaða heit vinnur klausturfólk?
Klausturfólk heitir 1. að hafa enga einkaeign
2. að lifa einlífi
3. að hlýða yfirboðurum sínum.
Ásetningur: Hve margar fórnir færir klausturfólk í þjónustu sjúkra, æskunnar og trúboðsins, með bænum sínum og yfirbótarverkum? Kann ég að meta það? Veiti ég starfsemi þeirra stuðning? Hefi ég þegar spurt sjálfan mig, hvort Guð hafi einnig veitt mér köllun til klausturlífs?
Heilög ritning: Jesús segir: "Til eru þeir geldingar, sem hafa gelt sjálfa sig vegna himnaríkis. Sá höndli þetta er höndlað getur". (Matt. 19, 12).
"Evangelísku heilræðin": Í guðspjöllunum lesum vér, að Jesús hafi hvatt suma til að afsala sér eignum og lífsstöðum sakir Guðs ríkis og fylgja honum eftir að fullu og öllu. Hann hefur talið þá sæla, er vilja neita sér um hjúskaparlíf sakir Guðs ríkis. Þess vegna kalla menn fátækt af frjálsum vílja, hreinlífi af frjálsum vilja sakir Guðs ríkis og hlýðnisskyldu gagnvart andlegum yfirboðara , "hin evangelísku heilræði".
Tal um trúmál: Sumir menn spyrja: Gæti klausturfólk ekki orðið að meira gagni, ef það væri gift og tæki sér lífsstöðu utan klaustursins?
Því svörum vér: " Fyrst og fremst kallar klausturfólkið með bænum sínum, fórnum og yfirbótarverkum, ómetanlegar blessanir yfir heiminn; Guð einn veit, hvað yrði um oss, ef ekki væru til þessir ósýnilegu bænarmenn í klaustrunum. Í öðru lagi vinnur klausturfólk heiminum ómetanlegt gagn í starfi sálusorgara, trúboða, uppalenda, vísindamanna, rannsóknara, listamanna og sérstaklega í hjúkrunarstarfi.
Verkefni:
1. Hvaða klaustur þekkir þú hér á landi?
2. Hvaða reglufélög þekkir þú?
3. Hvaða stofnendur reglufélaga getur þú nefnt?
4. Hvaða hlutverk hafa hins ýmsu reglufélög?
5. Hvaða klausturfólk hefur unnið sér til frægðar sem sálusorgarar,
sem trúboðar, sem uppalendur, sem vísindamenn, sem rannsóknarar
(könnuðir), sem listamenn, sem velgjörðarmenn bágstaddra og sjúkra?
""Reglufélögin og klausturfélögin eru gimsteinar í brúðarslæðu kirkjunnar"
Píus páfi III.